Masahiko Kimura - Júdókappi aldarinnar
Masahiko Kimura er almennt talinn einn öflugasti Judomaður sem uppi hefur verið. Hann fæddist tíunda September 1917 í bænum Kumamoto í Japan. Hann byrjaði að æfa Judo þegar hann var tíu ára og strax þegar hann varð 16 ára var hann búinn að ná 4. Dan. Á þessum árum voru beltaprófanir ekki eins formlegar og í dag, og var það aðallega metið út frá keppnisárangri hvenær nemendur fengu hærra belti. Kimura hafði þá unnið sex 4. Dan andstæðinga í röð. 1935, þá átján ára að aldri varð hann yngsti go-dan allra tíma þegar hann vann 8 andstæðinga í röð í Kodokan-klúbbnum, sem enn þann dag í dag er hjarta og sál Judo-iðkunar í heiminum. En níundi andstæðingurinn, Miyajima, reyndist honum ofviða og kastaði honum á Harai-goshi.
Mánuði seinna reyndi Kimura að vinna sig enn hærra upp virðingarstigann og keppti á 5. Dan móti í Kodokan. Þar gekk honum ekki vel, og tapaði báðum glímum sínum gegn 5. Dan köppunum Osawa og Abe.
Um haustið gekk honum betur, sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína en laut í lægra haldi fyrir Hideo Yamamoto á ko-uchi-gari. Kimura tók tapinu afar illa, sérstaklega vegna þess að Yamamoto var tuttugu kílóum léttari en hann. Lagðist hann í þunglyndi og íhugaði að segja alfarið skilið við íþróttina, þar sem hann hélt að hann væri búinn að ná eins langt og hann gæti.
Vinir hans Funeyama og Ka-i hughreystu hann og hvöttu til að gefast ekki upp, hann ætti framtíðina fyrir sér. Kimura hóf æfingar að nýju af meiri krafti en áður og gekk svo langt að vinir hans fóru að hafa áhyggjur af honum. Löngun hans til að ná fram hefndum gegn Abe, Osawa og Yamamoto var svo sterk að segja má að hún jaðraði við þráhyggju. Kimura æfði m.a með því að negla hjólreiðaslöngu við tré og notaði hana til að fullkomna o-soto-gari kastið, sem seinna varð hans aðal kast. Aftur og aftur reyndi hann að kasta trénu svo að mjöðmin á honum var öll marin, blá og blóðug. Þessi þjálfunaraðferð gerði hann svo öflugan að einn daginn þurftu tíu Kodokan meðlimir að leita sér aðstoðar vegna svæsins heilahristings eftir æfingar með Kimura. Brátt neyddist hann til þess að lofa upp á æru og trú að kasta mönnum ekki á O-soto-gari því að enginn þorði að æfa með honum lengur.
Eftir sex mánaða þrotlausar æfingar var tími hefndarinnar runninn upp.
Hann leitaði Osawa uppi í Judosal Tokyo-lögreglunnar og kastaði honum á Ippon auðveldlega.
Abe sótti Kimura heim í Kodokan-klúbbnum og þar tókust þeir á í Randori(frjálsri æfingu).
Allt þagnaði í salnum, sem í þá daga taldi 500 dýnur, og öll augu fylgdust með þessum tveim köppum. Á tuttugu mínútum var Abe kastað á seio-nage, o-soto-gari, uchi-gari og fjölmörgum öðrum köstum. Þegar æfingunni var lokið gekk Abe hnugginn á brott og hengdi haus af skömm, þvílíkir voru yfirburðir Kimura. Allir sem fylgdust með viðureign þeirra vissu að ný goðsögn væri um það bil að fæðast. Að lokum mættust þeir Kimura og Yamamoto í sal Mitsubishi-fyrirtækisins í Tokyo og var Yamamoto eins og kettlingur í höndunum á hinum nýja og endurbætta Kimura sem vann hann á ude-garami. Nú var hefndin fullkomnuð og Kimura gat loksins litið glaðan dag að nýju.
Í Október 1935 vann hann sinn fyrsta stóra titil, All-Japan Collegiate Championships. 1937 keppti hann í fyrsta skiptið á All-Japan Championships, sterkasta og mikilvægasta Judomóti Japan í þá daga. Þar mætti hann Masayuki Nakajima í úrslitunum. Sá maður var tvöfaldur Japans meistari, og ætlaði ekki að gefa eftir gegn einhverjum ungum lúsablesa á borð við Kimura.
Voru þeir svo jafnir að verðleikum að fyrsta korterið náði hvorugur þeirra að skora stig. Í annarri lotu skoraði Kimura Waza-ari á Ippon-seoinage, en hélt að hann hefði skorað Ippon og slakaði á í sekúndubrot. Þetta varð honum næstum því að falli því að dómarinn var honum ósammála og Nakajima brást snögglega við með ken-ken Uchi-Mata. Þegar þriðja lota hófst voru þeir jafnir að stigum, hvor um sig hafði skorað eitt waza-ari. Kimura hafði fram fullnaðarsigur í loka lotunni á kuzure-kamishiho-gatame. Kimura hafði unnið fyrsta meistaratitil sinn sem atvinnumaður. En hann var ekki sáttur. Um nóttina bylti hann sér um andvaka í rúmi sínu, og efinn heltók hann. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hæglega hefði verið hægt að dæma Nakajima sigur á Ippon eftir ken-ken-Uchi-Mata og hann hefði í raun verið heppinn með að dómarinn tók ekki þá ákvörðun. Þetta eyðilagði alveg fyrir honum sigurinn. Strax daginn eftir byrjaði hann að æfa á ný og strengdi þess heit að hætta ekki fyrr en hann yrði 100% óumdeilanlega besti Judomaður í heimi. Til þess yrði hann að æfa meira en keppinautarnir.
Næstu átta árin æfði hann níu klukkutíma á dag, og gerði t.d að meðaltali 1000 armbeygjur á móti þremur til fjórum klukkutímum og 300 armbeygjum á dag hjá helstu keppinautum hans.
Þessi ástundun borgaði sig svo um munaði, því að Kimura tapaði ekki glímu það sem eftir lifði ferilsins.
Hann vann All-Japan mótið aftur 1938 og í þriðja sinn 1939, og vann þar með hinn sérstaka meistarafána til eignar. Hann er eini Judomaður sögunnar sem hefur afrekað það.
Kimura var alla tíð ólíkindatól og langt frá því að vera hinn dæmigerði íþróttamaður. Hann reykti og var mikill drykkjusvoli þegar sá gállinn var á honum, en þess á milli æfði hann af meira kappi en gengur og gerist meðal Judomanna. Einnig voru margir vinir hans og kunningjar fremur vafasamar persónur, og þá sérstaklega góðvinur hans Mas Oyama, sem var nafntogaður Karate-maður og meðlimur í Yakuza, Japönsku mafíunni. Oyama kenndi honum Karate, og nýtti hann sér þær æfingar sem hluta af Judo-þjálfun sinni þó svo að hann keppti ekki í Karate og hlyti aldrei neina formlega gráðun.
1940 keppti hann á Ten-Ran Shiai, sérstöku móti sem haldið var til heiðurs Hirohito keisara sem fylgdist grannt með. Kimura hakkaði keppinautana í sig og sú staðreynd að hann vann úrslitaglímuna á 42 sekúndum segir mikið um algjöra yfirburði hans á þessum árum. Í sigurlaun fékk Kimura veglegan Tanto-hníf sem hann tók við úr hendi keisarans. Var hann þarmeð orðinn nokkurns konar heiðursborgari, samúræi í þjónustu keisarans.
Þegar seinni heimstyrjöldin skall á gekk Kimura í herinn og þar var hann gerður að yfirþjálfara í návígisbardagatækni. Tók hann að drekka meira en góðu hófi gengdi og mætti stundum ölvaður til kennslu.
Seinni heimsstyrjöldin hjó stór skörð í raðir Japanskra íþróttamanna, og fóru Judomenn ekki varhluta af því. Margir af helstu keppinautum og æfingafélögum Kimura féllu á vígvellinum á meðan hann eyddi stríðinu sæmilega öruggur heima fyrir. Sú sektarkennd sem því fylgdi varð einungis til að auka á drykkjuvandamál hans. Reif hann sig að lokum upp úr því volæði en segja má að stríðsárin hafi verið lægsti punktur lífs Kimura, eins og allra annarra Japana.
1949 keppti Kimura á sínu síðasta All-Japan móti. Þar fór hann alla leið í úrslitin eins og hans var von og vísa og mætti Takahiko Ishikawa, sem veitti honum mun meiri mótspyrnu en nokkur annar mótherji hafði gert svo árum skipti. Eftir þrjár framlengingar hafði hvorugur skorað eitt einasta wazari og voru þeir algerlega hnífjafnir í augum dómaranna. Að lokum skakkaði Mifune, 10. Dan meistari og æðsti sensei Judomanna, leikinn og lýsti því yfir að þeir væru báðir meistarar. Ishikawa átti seinna eftir að eiga afar farsælan Judoferil en það er önnur saga.
Í Júlí 1951 var Kimura sendur til Brasilíu fyrir hönd Kodokan Judo ásamt tveimur öðrum Judo-köppum, þeim Yamaguchi og Kado. Gracie-bræðurnir Carlos, Osvaldo, Gastao, Jorge og Helio höfðu vakið mikla athygli í sínu heimalandi sem annars staðar fyrir þá bardagalist sem þeir höfðu þróað upp úr Jiu-Jitsu tækni sem þeir höfðu lært af Mitsuyo Maeda, brottfluttum Japana.
Þessi "nýja" bardagalist byggðist að miklu leiti upp á gólfglímu og lásum og höfðu Gracie-bræðurnir náð ótrúlegum árangri með henni í hinum harða heimi Vale-Tudo(allt leyfilegt á Portúgölsku) sem var mikið stunduð "íþrótt" í Brazilíu af allra hörðustu slagsmálahundunum.
Höfðu Gracie-bræðurnir góðar tekjur af því að skora ýmsa nafntogaða harðjaxla úr ýmsum bardagalistum auk götubardagamanna á hólm og lögðu peninga að veði. Tækni þeirra var svo öflug að þeir voru ósigraðir eftir fleiri tugi Vale-Tudo viðureigna.
Japanskir Jiu-Jitsu iðkendur móðguðust mjög yfir því að einhverjir skítugir útlendingar væru að saurga nafn þessarar fornu listar með því að slást eins og ótíndir glæpamenn á götum úti. Nokkrir af helstu Jiu-Jitsu köppum Japans voru gerðir út af örkinni til að lækka í þeim rostann, en komu sneyptir heim með skottið á milli fótanna því að Gracie bræðurnir unnu þá alla. Eftir þá fýluför hafði Brazilian Jiu-Jitsu(BJJ) unnið sér inn varanlegan sess í bardagalistaflóru heimsins.
Nú var komið að Judo mönnum að reyna sig gegn þessum hingað til ósigruðu köppum. Reglurnar voru einfaldar. Henging eða uppgjöf vegna lása dugði til sigurs, ekki var nóg að kasta andstæðingnum. Einnig voru högg og spörk ekki leyfð. Þetta var klassísk uppgjafarglíma, engar lotur, engin tímamörk.
Kado var fyrstur til að taka áskorun frá Helio Gracie, sem þá hafði ekki tapað viðureign í 20 ár. Kado kastaði Helio af miklu afli nokkrum sinnum en Helio sýndi mjög gott Ukemi(falltækni) og kenndi sér lítils meins af. Eftir tíu mínútur var Kado orðinn svekktur og ákvað að reyna að ná hengingu. Helio snéri þá taflinu leiftursnöggt við og læsti inn gríðarsterkri hengingu þannig að það steinleið yfir Kado.
Helio komst á forsíður allra dagblaða í Brazilíu og varð þjóðhetja fyrir bragðið. Gekk hann á lagið og skoraði á þá tvo sem eftir voru. Yamaguchi brast kjark, var hræddur við að verða fyrir meiðslum og vék sér undan. Kimura tók áskoruninni og sviðið var sett fyrir hið sanna einvígi aldarinnar. 20.000 Brazilíumenn borguðu sig inn á stærsta fótboltavöll Rio De Janero til að fylgjast með, og bæði forseti og varaforseti Brazilíu ásamt Japanska sendiherranum áttu sæti í fremstu röð.
Kimura sparaði ekki stóru orðin á blaðamannafundinum fyrir einvígið og sagði að ef Helio næði að endast þrjár mínútur með honum þá mætti hann kalla sig sigurvegara. Þessi orð áttu eftir að koma honum í koll.
Þegar stóri dagurinn rann upp báru áhangendur Gracie-bræðranna líkkistu inn á völlinn og stilltu henni upp við hliðina á pallinum þar sem einvígið átti að fara fram. Myndlíkingin var augljós. Kimura hóf einvígið með því að kasta Helio eins fast og hann gat á o-soto-gari en enn og aftur sýndi Helio frábært Ukemi og gerði allt sem hann gat til að draga hinn stærri og sterkari Kimura niður í gólfið þar sem bestu vinningslíkur hans lágu. Kimura var samt enginn aukvisi í gólfglímu og upphófst mikil rimma. Segja má að Kimura hafi neyðst til að tjalda öllu sem til var. Ippon-seoi-nage, o-soto-gari, harai-goshi, kuzure-kamishiho-gatame, kesa-gatame, sankaku-gatame og fleiri tungubrjótar.....Helio stóðst þetta allt og gerði hvað hann gat til að snúa taflinu við. Þegar klukkan skreið yfir þriggja mínútu markið brutust út gríðarleg fagnaðarlæti meðal áhorfenda og þeir hófu að kyrja "loser, loser" og hegndist þar Kimura yfirlýsingagleðin svo um munaði.
Hann beit þó á jaxlinn og glíman hélt áfram. Þegar tólf mínútur voru liðnar náði hann Helio í Ude-Garami olnbogalás og snéri upp á handlegg hans svo um munaði. Litli Brazilíumaðurinn neitaði að gefast upp, svo að Kimura bætti á þrýstinginn með þeim afleiðingum að Helio olnbogabrotnaði.
Kimura slakaði á klónni þegar hann fann beinið brotna, viss um að glímunni væri sjálfhætt. Ekki var Helio á þeim buxunum heldur reyndi af veikum mætti að knýja fram sigur þótt slasaður væri. Bræður hans höfðu samt fengið nóg, og hentu hvítu handklæði inn á mottuna sem merki um uppgjöf. Kimura varð svo snortinn af baráttuvilja Helio að hann veitti honum 1. Dan svartabelti í Judo í heiðursskyni. Urðu þeir miklir perluvinir og héldu sambandi allar götur síðan. Yfirmenn Kodokan voru engan veginn sáttir við ákvörðun Kimura að gefa Helio belti sem þeim fannst hann ekki verðskulda, en Kimura stóð við ákvörðun sína.
Mörgum árum seinna viðurkenndi Helio, sem enn er á lífi, að allt frá því að Kimura kastaði honum fyrst hafi hann vitað að hann myndi tapa. "Ég var eins og barn í höndum hans", sagði hann. "Þetta var einungis spurning um hvað ég myndi endast lengi".
Þetta var annar af tveimur ósigrum Helio Gracie á ævinni.
Sigurför Kimura til Brazilíu gulltryggði honum sess þjóðhetju í Japan. Á árunum eftir stríð var mikil fátækt í Japan, og ekki fór Kimura varhluta af því. Hann tók þátt í ævintýri sem hét "Professional Judo", tilraun til að markaðssetja Judo í sjónvarpi á svipaðan hátt og fjölbragðaglímu, en sú tilraun endaði með ósköpum vegna slælegs fjármálavits stjórnendanna.
Ekki bætti úr skák að kona hans veiktist af berklum, og höfðu þau ekki efni á hinum dýru lyfjum sem hún þurfti. Kimura fór þá til Hawaii og tók þar þátt í "Pro Wrestling", eða fjölbragðaglímu, og vann sér inn nægilegt fjármagn til að lækna konu sína. Þeir sem skipulögðu sviðsettar fjölbragðaglímur í Japan sáu strax möguleikana á gríðarlegum tekjum ef að hægt væri að fá heimsþekktan Judomann eins og Kimura til að kljást við frægan glímumann. Fyrir valinu varð Rikidozan, fyrrverandi Sumo-kappi sem eins og Kimura hafði lært Karate hjá Mas Oyama, og var geysivinsæll glímumaður í Japan.
Kimura sló til og ákveðið var að fyrsta viðureign þeirra myndi enda með jafntefli og svo myndu þeir vinna eina viðureign hvor. Allt var þetta skipulagt fyrirfram eins og gengur og gerist í fjölbragðaglímu, en það sem Kimura vissi ekki var að Rikidozan og umboðsmaður hans voru að leiða hann í gildru.
Hafa skal í huga að á þessum tíma voru enn nokkrir glímumenn sem börðust í alvöru, þó svo að fyrirfram ákveðnar viðureignir væru algengari, og almenningur vissi ekki af þessu. Leyndarmál fjölbragðaglímunnar var ennþá leyndarmál.
Mörgum sögum fer af því nákvæmlega hvað olli þeirri atburðarás sem á eftir fór. Það fer að miklu leyti eftir því hvort þú spyrð Judo-mann eða japanskan fjölbragðaglímu-aðdáanda hvaða útgáfu þú heyrir. Vinsælasta kenningin er þó að Rikidozan ætlaði að gulltryggja vinsældir sínar með því að bera fullnaðarsigur af Kimura. Sannleikurinn mun sennilega aldrei koma í ljós.
Þetta svokallaða "einvígi aldarinnar" var og er svartur blettur í íþróttasögu Japan, ef hægt er að kalla fjölbragðaglímu íþrótt. Fyrstu 15 mínúturnar gekk allt eins og í sögu, báðir fylgdu þeir handritinu út í ystu æsar. En þá komu svikin í ljós. Rikidozan átti að slá Kimura handajaðarshöggi í brjóstkassann en sló hann bylmingsfast rétt fyrir aftan eyrað þannig að honum sortnaði fyrir augu og féll á kné fram. Rikidozan klykkti svo út með því að sparka í andlitið á honum með þeim afleiðingum að hann rotaðist.
Rikidozan greip svo hljóðnema og lýsti opinberlega yfir sigri fjölbragðaglímunnar, að Judomenn væru þeim óæðri og Kimura væri væskill sem ekki kynni að berjast.
Þegar Kimura rankaði við sér stóð vinur hans Mas Oyama við sjúkrarúmið ásamt fleiri Yakuza-mönnum og nötruðu þeir allir af bræði yfir þessari svívirðu. Bauðst Oyama to þess að koma Rikidozan fyrir kattarnef strax þá um nóttina, en Kimura bað hann um að gera það ekki, hann yrði að hugleiða málið og ráðskast við andaheiminn.
Kimura stundaði Shinto-trú eins og margir Japanir og í þetta skiptið fékk hann sterka tilfinningu, hugljómun sem tengdist kvalafullum dauða. Sagði hann Oyama að láta Rikidozan í friði þar sem að örlög hans myndu verða þau sömu hvort sem er.
Tíu árum seinna var Rikidozan stunginn til bana af drukknum smáglæpamanni á knæpu í Tokyo vegna smávægilegs rifrildis. Var hann stunginn í magann og leið miklar kvalir áður en hann dó.
Síðasti merki bardagi Kimura var árið 1959 þegar hann hann snéri aftur til Brazilíu á kynningarferðalagi. Upprennandi bardagamaður að nafni Aldemar Santana, sem var meistari í Brasilísku Jiu-Jitsu, Capoeira og vestrænu Boxi, hafði nýlega rotað Helio Gracie og þannig orðið eini maðurinn til að vinna Helio á ótvíræðan hátt.
Santana skoraði á Kimura að taka eina uppgjafarglímu við sig. Játti Kimura því, þrátt fyrir að Santana væri 15 árum yngri, 10 cm. hærri og nærri því 20 kg. þyngri.
Kimura vann auðveldlega á Ude-Garami.
Þá skoraði Santana hann aftur á hólm, í þetta skiptið í viðureign undir ekta Vale-Tudo reglum. Þó svo að flestir réðu honum frá því tók Kimura þeirri áskorun einnig, og dró seinni viðureign þeirra að sér 10.000 áhorfendur. Kimura vissi að Santana væri mun betur að sér í höggum og spörkum, þannig að eina von hans lægi í að koma honum í gólfglímu við fyrsta tækifæri. En hann vanmat hversu erfitt væri að kasta nær nöktum manni sem var löðrandi í svita og mistókst kastið. Santana kom honum á bakið og ætlaði að ganga frá honum með því að nota högg og skalla. Eftir þrjá skalla tímasetti Kimura viðbragð sitt vel og sló Santana eins fast og hann gat beint á nefið. Það brotnaði og blóð fossaði út um allt. Eftir þetta má segja að Santana hafi verið meira og minna rænulaus þó að enn hafi hann staðið í lappirnar, en báðir voru þeir ófærir um að knýja fram sigur vegna þreytu. Eftir 40 mínútna viðureign var bardaginn stoppaður og jafntefli lýst yfir.
Kimura settist í helgan stein árið 1960 og kenndi Judo við Tokushoku háskóla, m.a mörgum Ólympíu-og Japans meisturum. Hann var aldrei hækkaður upp fyrir 5. Dan vegna deilna við Kodokan vegna viðureigna hans utan Judoíþróttarinnar og svartabeltisins sem hann gaf Helio Gracie.
Masahiko Kimura dó árið 1992 úr lungnakrabbameini, 75 ára að aldri. Rétt áður en hann veiktist gerði hann enn 300 armbeygjur á dag.
Hann lét eftir sig konu og tvö börn, son og dóttur.