Friday, November 25, 2005

Masahiko Kimura - Júdókappi aldarinnar


Masahiko Kimura er almennt talinn einn öflugasti Judomaður sem uppi hefur verið. Hann fæddist tíunda September 1917 í bænum Kumamoto í Japan. Hann byrjaði að æfa Judo þegar hann var tíu ára og strax þegar hann varð 16 ára var hann búinn að ná 4. Dan. Á þessum árum voru beltaprófanir ekki eins formlegar og í dag, og var það aðallega metið út frá keppnisárangri hvenær nemendur fengu hærra belti. Kimura hafði þá unnið sex 4. Dan andstæðinga í röð. 1935, þá átján ára að aldri varð hann yngsti go-dan allra tíma þegar hann vann 8 andstæðinga í röð í Kodokan-klúbbnum, sem enn þann dag í dag er hjarta og sál Judo-iðkunar í heiminum. En níundi andstæðingurinn, Miyajima, reyndist honum ofviða og kastaði honum á Harai-goshi.

Mánuði seinna reyndi Kimura að vinna sig enn hærra upp virðingarstigann og keppti á 5. Dan móti í Kodokan. Þar gekk honum ekki vel, og tapaði báðum glímum sínum gegn 5. Dan köppunum Osawa og Abe.

Um haustið gekk honum betur, sigraði fyrstu tvo andstæðinga sína en laut í lægra haldi fyrir Hideo Yamamoto á ko-uchi-gari. Kimura tók tapinu afar illa, sérstaklega vegna þess að Yamamoto var tuttugu kílóum léttari en hann. Lagðist hann í þunglyndi og íhugaði að segja alfarið skilið við íþróttina, þar sem hann hélt að hann væri búinn að ná eins langt og hann gæti.

Vinir hans Funeyama og Ka-i hughreystu hann og hvöttu til að gefast ekki upp, hann ætti framtíðina fyrir sér. Kimura hóf æfingar að nýju af meiri krafti en áður og gekk svo langt að vinir hans fóru að hafa áhyggjur af honum. Löngun hans til að ná fram hefndum gegn Abe, Osawa og Yamamoto var svo sterk að segja má að hún jaðraði við þráhyggju. Kimura æfði m.a með því að negla hjólreiðaslöngu við tré og notaði hana til að fullkomna o-soto-gari kastið, sem seinna varð hans aðal kast. Aftur og aftur reyndi hann að kasta trénu svo að mjöðmin á honum var öll marin, blá og blóðug. Þessi þjálfunaraðferð gerði hann svo öflugan að einn daginn þurftu tíu Kodokan meðlimir að leita sér aðstoðar vegna svæsins heilahristings eftir æfingar með Kimura. Brátt neyddist hann til þess að lofa upp á æru og trú að kasta mönnum ekki á O-soto-gari því að enginn þorði að æfa með honum lengur.

Eftir sex mánaða þrotlausar æfingar var tími hefndarinnar runninn upp.

Hann leitaði Osawa uppi í Judosal Tokyo-lögreglunnar og kastaði honum á Ippon auðveldlega.
Abe sótti Kimura heim í Kodokan-klúbbnum og þar tókust þeir á í Randori(frjálsri æfingu).
Allt þagnaði í salnum, sem í þá daga taldi 500 dýnur, og öll augu fylgdust með þessum tveim köppum. Á tuttugu mínútum var Abe kastað á seio-nage, o-soto-gari, uchi-gari og fjölmörgum öðrum köstum. Þegar æfingunni var lokið gekk Abe hnugginn á brott og hengdi haus af skömm, þvílíkir voru yfirburðir Kimura. Allir sem fylgdust með viðureign þeirra vissu að ný goðsögn væri um það bil að fæðast. Að lokum mættust þeir Kimura og Yamamoto í sal Mitsubishi-fyrirtækisins í Tokyo og var Yamamoto eins og kettlingur í höndunum á hinum nýja og endurbætta Kimura sem vann hann á ude-garami. Nú var hefndin fullkomnuð og Kimura gat loksins litið glaðan dag að nýju.

Í Október 1935 vann hann sinn fyrsta stóra titil, All-Japan Collegiate Championships. 1937 keppti hann í fyrsta skiptið á All-Japan Championships, sterkasta og mikilvægasta Judomóti Japan í þá daga. Þar mætti hann Masayuki Nakajima í úrslitunum. Sá maður var tvöfaldur Japans meistari, og ætlaði ekki að gefa eftir gegn einhverjum ungum lúsablesa á borð við Kimura.
Voru þeir svo jafnir að verðleikum að fyrsta korterið náði hvorugur þeirra að skora stig. Í annarri lotu skoraði Kimura Waza-ari á Ippon-seoinage, en hélt að hann hefði skorað Ippon og slakaði á í sekúndubrot. Þetta varð honum næstum því að falli því að dómarinn var honum ósammála og Nakajima brást snögglega við með ken-ken Uchi-Mata. Þegar þriðja lota hófst voru þeir jafnir að stigum, hvor um sig hafði skorað eitt waza-ari. Kimura hafði fram fullnaðarsigur í loka lotunni á kuzure-kamishiho-gatame. Kimura hafði unnið fyrsta meistaratitil sinn sem atvinnumaður. En hann var ekki sáttur. Um nóttina bylti hann sér um andvaka í rúmi sínu, og efinn heltók hann. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hæglega hefði verið hægt að dæma Nakajima sigur á Ippon eftir ken-ken-Uchi-Mata og hann hefði í raun verið heppinn með að dómarinn tók ekki þá ákvörðun. Þetta eyðilagði alveg fyrir honum sigurinn. Strax daginn eftir byrjaði hann að æfa á ný og strengdi þess heit að hætta ekki fyrr en hann yrði 100% óumdeilanlega besti Judomaður í heimi. Til þess yrði hann að æfa meira en keppinautarnir.

Næstu átta árin æfði hann níu klukkutíma á dag, og gerði t.d að meðaltali 1000 armbeygjur á móti þremur til fjórum klukkutímum og 300 armbeygjum á dag hjá helstu keppinautum hans.
Þessi ástundun borgaði sig svo um munaði, því að Kimura tapaði ekki glímu það sem eftir lifði ferilsins.

Hann vann All-Japan mótið aftur 1938 og í þriðja sinn 1939, og vann þar með hinn sérstaka meistarafána til eignar. Hann er eini Judomaður sögunnar sem hefur afrekað það.

Kimura var alla tíð ólíkindatól og langt frá því að vera hinn dæmigerði íþróttamaður. Hann reykti og var mikill drykkjusvoli þegar sá gállinn var á honum, en þess á milli æfði hann af meira kappi en gengur og gerist meðal Judomanna. Einnig voru margir vinir hans og kunningjar fremur vafasamar persónur, og þá sérstaklega góðvinur hans Mas Oyama, sem var nafntogaður Karate-maður og meðlimur í Yakuza, Japönsku mafíunni. Oyama kenndi honum Karate, og nýtti hann sér þær æfingar sem hluta af Judo-þjálfun sinni þó svo að hann keppti ekki í Karate og hlyti aldrei neina formlega gráðun.

1940 keppti hann á Ten-Ran Shiai, sérstöku móti sem haldið var til heiðurs Hirohito keisara sem fylgdist grannt með. Kimura hakkaði keppinautana í sig og sú staðreynd að hann vann úrslitaglímuna á 42 sekúndum segir mikið um algjöra yfirburði hans á þessum árum. Í sigurlaun fékk Kimura veglegan Tanto-hníf sem hann tók við úr hendi keisarans. Var hann þarmeð orðinn nokkurns konar heiðursborgari, samúræi í þjónustu keisarans.

Þegar seinni heimstyrjöldin skall á gekk Kimura í herinn og þar var hann gerður að yfirþjálfara í návígisbardagatækni. Tók hann að drekka meira en góðu hófi gengdi og mætti stundum ölvaður til kennslu.

Seinni heimsstyrjöldin hjó stór skörð í raðir Japanskra íþróttamanna, og fóru Judomenn ekki varhluta af því. Margir af helstu keppinautum og æfingafélögum Kimura féllu á vígvellinum á meðan hann eyddi stríðinu sæmilega öruggur heima fyrir. Sú sektarkennd sem því fylgdi varð einungis til að auka á drykkjuvandamál hans. Reif hann sig að lokum upp úr því volæði en segja má að stríðsárin hafi verið lægsti punktur lífs Kimura, eins og allra annarra Japana.

1949 keppti Kimura á sínu síðasta All-Japan móti. Þar fór hann alla leið í úrslitin eins og hans var von og vísa og mætti Takahiko Ishikawa, sem veitti honum mun meiri mótspyrnu en nokkur annar mótherji hafði gert svo árum skipti. Eftir þrjár framlengingar hafði hvorugur skorað eitt einasta wazari og voru þeir algerlega hnífjafnir í augum dómaranna. Að lokum skakkaði Mifune, 10. Dan meistari og æðsti sensei Judomanna, leikinn og lýsti því yfir að þeir væru báðir meistarar. Ishikawa átti seinna eftir að eiga afar farsælan Judoferil en það er önnur saga.

Í Júlí 1951 var Kimura sendur til Brasilíu fyrir hönd Kodokan Judo ásamt tveimur öðrum Judo-köppum, þeim Yamaguchi og Kado. Gracie-bræðurnir Carlos, Osvaldo, Gastao, Jorge og Helio höfðu vakið mikla athygli í sínu heimalandi sem annars staðar fyrir þá bardagalist sem þeir höfðu þróað upp úr Jiu-Jitsu tækni sem þeir höfðu lært af Mitsuyo Maeda, brottfluttum Japana.

Þessi "nýja" bardagalist byggðist að miklu leiti upp á gólfglímu og lásum og höfðu Gracie-bræðurnir náð ótrúlegum árangri með henni í hinum harða heimi Vale-Tudo(allt leyfilegt á Portúgölsku) sem var mikið stunduð "íþrótt" í Brazilíu af allra hörðustu slagsmálahundunum.

Höfðu Gracie-bræðurnir góðar tekjur af því að skora ýmsa nafntogaða harðjaxla úr ýmsum bardagalistum auk götubardagamanna á hólm og lögðu peninga að veði. Tækni þeirra var svo öflug að þeir voru ósigraðir eftir fleiri tugi Vale-Tudo viðureigna.

Japanskir Jiu-Jitsu iðkendur móðguðust mjög yfir því að einhverjir skítugir útlendingar væru að saurga nafn þessarar fornu listar með því að slást eins og ótíndir glæpamenn á götum úti. Nokkrir af helstu Jiu-Jitsu köppum Japans voru gerðir út af örkinni til að lækka í þeim rostann, en komu sneyptir heim með skottið á milli fótanna því að Gracie bræðurnir unnu þá alla. Eftir þá fýluför hafði Brazilian Jiu-Jitsu(BJJ) unnið sér inn varanlegan sess í bardagalistaflóru heimsins.

Nú var komið að Judo mönnum að reyna sig gegn þessum hingað til ósigruðu köppum. Reglurnar voru einfaldar. Henging eða uppgjöf vegna lása dugði til sigurs, ekki var nóg að kasta andstæðingnum. Einnig voru högg og spörk ekki leyfð. Þetta var klassísk uppgjafarglíma, engar lotur, engin tímamörk.

Kado var fyrstur til að taka áskorun frá Helio Gracie, sem þá hafði ekki tapað viðureign í 20 ár. Kado kastaði Helio af miklu afli nokkrum sinnum en Helio sýndi mjög gott Ukemi(falltækni) og kenndi sér lítils meins af. Eftir tíu mínútur var Kado orðinn svekktur og ákvað að reyna að ná hengingu. Helio snéri þá taflinu leiftursnöggt við og læsti inn gríðarsterkri hengingu þannig að það steinleið yfir Kado.

Helio komst á forsíður allra dagblaða í Brazilíu og varð þjóðhetja fyrir bragðið. Gekk hann á lagið og skoraði á þá tvo sem eftir voru. Yamaguchi brast kjark, var hræddur við að verða fyrir meiðslum og vék sér undan. Kimura tók áskoruninni og sviðið var sett fyrir hið sanna einvígi aldarinnar. 20.000 Brazilíumenn borguðu sig inn á stærsta fótboltavöll Rio De Janero til að fylgjast með, og bæði forseti og varaforseti Brazilíu ásamt Japanska sendiherranum áttu sæti í fremstu röð.

Kimura sparaði ekki stóru orðin á blaðamannafundinum fyrir einvígið og sagði að ef Helio næði að endast þrjár mínútur með honum þá mætti hann kalla sig sigurvegara. Þessi orð áttu eftir að koma honum í koll.

Þegar stóri dagurinn rann upp báru áhangendur Gracie-bræðranna líkkistu inn á völlinn og stilltu henni upp við hliðina á pallinum þar sem einvígið átti að fara fram. Myndlíkingin var augljós. Kimura hóf einvígið með því að kasta Helio eins fast og hann gat á o-soto-gari en enn og aftur sýndi Helio frábært Ukemi og gerði allt sem hann gat til að draga hinn stærri og sterkari Kimura niður í gólfið þar sem bestu vinningslíkur hans lágu. Kimura var samt enginn aukvisi í gólfglímu og upphófst mikil rimma. Segja má að Kimura hafi neyðst til að tjalda öllu sem til var. Ippon-seoi-nage, o-soto-gari, harai-goshi, kuzure-kamishiho-gatame, kesa-gatame, sankaku-gatame og fleiri tungubrjótar.....Helio stóðst þetta allt og gerði hvað hann gat til að snúa taflinu við. Þegar klukkan skreið yfir þriggja mínútu markið brutust út gríðarleg fagnaðarlæti meðal áhorfenda og þeir hófu að kyrja "loser, loser" og hegndist þar Kimura yfirlýsingagleðin svo um munaði.

Hann beit þó á jaxlinn og glíman hélt áfram. Þegar tólf mínútur voru liðnar náði hann Helio í Ude-Garami olnbogalás og snéri upp á handlegg hans svo um munaði. Litli Brazilíumaðurinn neitaði að gefast upp, svo að Kimura bætti á þrýstinginn með þeim afleiðingum að Helio olnbogabrotnaði.
Kimura vs Helio Gracie

Kimura slakaði á klónni þegar hann fann beinið brotna, viss um að glímunni væri sjálfhætt. Ekki var Helio á þeim buxunum heldur reyndi af veikum mætti að knýja fram sigur þótt slasaður væri. Bræður hans höfðu samt fengið nóg, og hentu hvítu handklæði inn á mottuna sem merki um uppgjöf. Kimura varð svo snortinn af baráttuvilja Helio að hann veitti honum 1. Dan svartabelti í Judo í heiðursskyni. Urðu þeir miklir perluvinir og héldu sambandi allar götur síðan. Yfirmenn Kodokan voru engan veginn sáttir við ákvörðun Kimura að gefa Helio belti sem þeim fannst hann ekki verðskulda, en Kimura stóð við ákvörðun sína.

Mörgum árum seinna viðurkenndi Helio, sem enn er á lífi, að allt frá því að Kimura kastaði honum fyrst hafi hann vitað að hann myndi tapa. "Ég var eins og barn í höndum hans", sagði hann. "Þetta var einungis spurning um hvað ég myndi endast lengi".

Þetta var annar af tveimur ósigrum Helio Gracie á ævinni.

Sigurför Kimura til Brazilíu gulltryggði honum sess þjóðhetju í Japan. Á árunum eftir stríð var mikil fátækt í Japan, og ekki fór Kimura varhluta af því. Hann tók þátt í ævintýri sem hét "Professional Judo", tilraun til að markaðssetja Judo í sjónvarpi á svipaðan hátt og fjölbragðaglímu, en sú tilraun endaði með ósköpum vegna slælegs fjármálavits stjórnendanna.

Ekki bætti úr skák að kona hans veiktist af berklum, og höfðu þau ekki efni á hinum dýru lyfjum sem hún þurfti. Kimura fór þá til Hawaii og tók þar þátt í "Pro Wrestling", eða fjölbragðaglímu, og vann sér inn nægilegt fjármagn til að lækna konu sína. Þeir sem skipulögðu sviðsettar fjölbragðaglímur í Japan sáu strax möguleikana á gríðarlegum tekjum ef að hægt væri að fá heimsþekktan Judomann eins og Kimura til að kljást við frægan glímumann. Fyrir valinu varð Rikidozan, fyrrverandi Sumo-kappi sem eins og Kimura hafði lært Karate hjá Mas Oyama, og var geysivinsæll glímumaður í Japan.

Kimura sló til og ákveðið var að fyrsta viðureign þeirra myndi enda með jafntefli og svo myndu þeir vinna eina viðureign hvor. Allt var þetta skipulagt fyrirfram eins og gengur og gerist í fjölbragðaglímu, en það sem Kimura vissi ekki var að Rikidozan og umboðsmaður hans voru að leiða hann í gildru.

Hafa skal í huga að á þessum tíma voru enn nokkrir glímumenn sem börðust í alvöru, þó svo að fyrirfram ákveðnar viðureignir væru algengari, og almenningur vissi ekki af þessu. Leyndarmál fjölbragðaglímunnar var ennþá leyndarmál.

Mörgum sögum fer af því nákvæmlega hvað olli þeirri atburðarás sem á eftir fór. Það fer að miklu leyti eftir því hvort þú spyrð Judo-mann eða japanskan fjölbragðaglímu-aðdáanda hvaða útgáfu þú heyrir. Vinsælasta kenningin er þó að Rikidozan ætlaði að gulltryggja vinsældir sínar með því að bera fullnaðarsigur af Kimura. Sannleikurinn mun sennilega aldrei koma í ljós.

Þetta svokallaða "einvígi aldarinnar" var og er svartur blettur í íþróttasögu Japan, ef hægt er að kalla fjölbragðaglímu íþrótt. Fyrstu 15 mínúturnar gekk allt eins og í sögu, báðir fylgdu þeir handritinu út í ystu æsar. En þá komu svikin í ljós. Rikidozan átti að slá Kimura handajaðarshöggi í brjóstkassann en sló hann bylmingsfast rétt fyrir aftan eyrað þannig að honum sortnaði fyrir augu og féll á kné fram. Rikidozan klykkti svo út með því að sparka í andlitið á honum með þeim afleiðingum að hann rotaðist.

Rikidozan greip svo hljóðnema og lýsti opinberlega yfir sigri fjölbragðaglímunnar, að Judomenn væru þeim óæðri og Kimura væri væskill sem ekki kynni að berjast.

Þegar Kimura rankaði við sér stóð vinur hans Mas Oyama við sjúkrarúmið ásamt fleiri Yakuza-mönnum og nötruðu þeir allir af bræði yfir þessari svívirðu. Bauðst Oyama to þess að koma Rikidozan fyrir kattarnef strax þá um nóttina, en Kimura bað hann um að gera það ekki, hann yrði að hugleiða málið og ráðskast við andaheiminn.

Kimura stundaði Shinto-trú eins og margir Japanir og í þetta skiptið fékk hann sterka tilfinningu, hugljómun sem tengdist kvalafullum dauða. Sagði hann Oyama að láta Rikidozan í friði þar sem að örlög hans myndu verða þau sömu hvort sem er.

Tíu árum seinna var Rikidozan stunginn til bana af drukknum smáglæpamanni á knæpu í Tokyo vegna smávægilegs rifrildis. Var hann stunginn í magann og leið miklar kvalir áður en hann dó.

Síðasti merki bardagi Kimura var árið 1959 þegar hann hann snéri aftur til Brazilíu á kynningarferðalagi. Upprennandi bardagamaður að nafni Aldemar Santana, sem var meistari í Brasilísku Jiu-Jitsu, Capoeira og vestrænu Boxi, hafði nýlega rotað Helio Gracie og þannig orðið eini maðurinn til að vinna Helio á ótvíræðan hátt.

Santana skoraði á Kimura að taka eina uppgjafarglímu við sig. Játti Kimura því, þrátt fyrir að Santana væri 15 árum yngri, 10 cm. hærri og nærri því 20 kg. þyngri.
Kimura vann auðveldlega á Ude-Garami.

Þá skoraði Santana hann aftur á hólm, í þetta skiptið í viðureign undir ekta Vale-Tudo reglum. Þó svo að flestir réðu honum frá því tók Kimura þeirri áskorun einnig, og dró seinni viðureign þeirra að sér 10.000 áhorfendur. Kimura vissi að Santana væri mun betur að sér í höggum og spörkum, þannig að eina von hans lægi í að koma honum í gólfglímu við fyrsta tækifæri. En hann vanmat hversu erfitt væri að kasta nær nöktum manni sem var löðrandi í svita og mistókst kastið. Santana kom honum á bakið og ætlaði að ganga frá honum með því að nota högg og skalla. Eftir þrjá skalla tímasetti Kimura viðbragð sitt vel og sló Santana eins fast og hann gat beint á nefið. Það brotnaði og blóð fossaði út um allt. Eftir þetta má segja að Santana hafi verið meira og minna rænulaus þó að enn hafi hann staðið í lappirnar, en báðir voru þeir ófærir um að knýja fram sigur vegna þreytu. Eftir 40 mínútna viðureign var bardaginn stoppaður og jafntefli lýst yfir.

Kimura settist í helgan stein árið 1960 og kenndi Judo við Tokushoku háskóla, m.a mörgum Ólympíu-og Japans meisturum. Hann var aldrei hækkaður upp fyrir 5. Dan vegna deilna við Kodokan vegna viðureigna hans utan Judoíþróttarinnar og svartabeltisins sem hann gaf Helio Gracie.

Masahiko Kimura dó árið 1992 úr lungnakrabbameini, 75 ára að aldri. Rétt áður en hann veiktist gerði hann enn 300 armbeygjur á dag.

Hann lét eftir sig konu og tvö börn, son og dóttur.

Andy Hug - Bláeygði Samúræinn



In Memoriam 1964-2000

Andy Hug fæddist 7. September 1964 í þorpinu Wohlen í
Sviss. Fyrstu ár ævi sinnar bjó hann á
munaðarleysingjaheimili vegna þess að móðir hans gat ekki
séð um hann af einhverjum ástæðum. Þegar hann var
þriggja ára tók amma hans hann að sér.

Vegna þess að hann var munaðarleysingi varð hann fyrir
aðkasti skólasystkina sinna og var lagður í einelti. Vinur
hans mælti með því að hann legði stund á Karate svo að
hann gæti varið sig gegn hrekkjusvínum. Þegar Andy var 10
ára byrjaði hann að æfa Karate og var fljótt afar góður.
Sem unglingur var hann orðinn svo skæður að
Karatesamband Sviss breytti reglunum um aldurstakmörk
svo að hann gæti keppt með fullorðnum í landsliðinu fyrir
hönd Sviss. Andy vann mótið auðveldlega.

19 ára gamall fór Andy Hug í fyrsta skipti til Japan til að keppa
á 3ja Opna heimsmeistaramótinu í Kyokushin Karate árið
1983. Hann varð ástfanginn af landi og þjóð, ástarsamband
sem átti eftir að endast til æviloka. Eftir að hafa vakið mikla
athygli þá sló hann endanlega í gegn á 4ða Opna
Heimsmeistaramótinu 1987. Þar sigraði hann heimsfræga
Karatemenn á borð við Masuda og Ademir Da Costa frá
Brasilíu og mætti Japönsku goðsögninni Musashi í
úrslitunum. Almennt er talið að viðureign þeirra hafi verið
besti Kyokushin bardagi allra tíma - tveir meistarar, annar á
hátindi hæfileika sinna og hinn ungur og ótrúlega efnilegur.
Hug var fyrsti Evrópumaðurinn til að komast í úrslitin, og var
viðureignin hnífjöfn allann tímann, en Musashi hafði sigur að
lokum.

Ári síðar varð Hug fyrsti International Super-Cup meistarinn
þegar hann vann Kenji Midori í Sviss

Árið eftir það varð hann Evrópumeistari í þungaviktarflokknum
í annað skiptið.

Árið 1992 flutti hann sig un set frá Kyokushin yfir í Seidokaikan
Karate og byrjaði að taka þátt í K-1 keppninni þar sem hann
átti eftir að verða súperstjarna í Japan.

Styrkur tækni og ekki síst persónuleiki Andy Hug gerði það að
verkum að andstæðingar hans og almenningur í Japan bar
mikla virðingu fyrir honum. Kancho Ishii, eigandi K-1 og
topklassa Karatemaður á sínum tíma orðaði það svona:

"Ástæðan fyrir því að fólk í Japan líkar við Andy er að hann
hefur eiginleika sem að það virðir: Stórt hjarta, örlæti, styrkur
og járnvilji".

Þessir eiginleikar voru taldir almennt af skornum skammti hjá
vestrænum bardagamönnum á þessum tíma. Segja má að
munaðarleysinginn Andy Hug hafi loksins verið tekinn í fóstur;
af Japönsku þjóðinni í heild.

Þó svo að hann hafi verið búsettur í Japan um árabil fór hann
alltaf heim til Sviss einu sinni á ári til að taka þátt í K-1 Fight
Night mótinu í Zurich. Á árunum 1995-2000 tapaði hann ekki
einum einasta bardaga í Sviss, og vann marga af bestu og
frægustu K-1 keppendum allra tíma, menn á borð við Peter
Aerts(2x K-1 heimsmeistari), Mike Bernardo frá Suður-Afríku,
Stefan Leko frá Þýskalandi og Mirko Filipovic(Crocop) frá
Króatíu.

Allir mótherjar hans voru sammála um að Hug væri hinn eini
sanni járnmaður því að hann sótti að þeim alla lotur, allann
tímann og hægði aldrei á sér eða barðist varnarlega.
Úthald hans var með hreinum ólíkindum.

Í byrjun ágúst 2000 fór Hug að finna fyrir hitaköstum og
blóðnösum og fór til læknis í Sviss. Þeir fundu ekkert að
honum svo að hann flaug til Japan til að hefja þjálfun sína fyrir
K-1 Grand Prix 2000 keppnina. Þremur dögum eftir að hann
kom til Japan missti hann meðvitund og var fluttur á
sjúkrahús.

Þar kom í ljós að hann var með æxli í hálsi sem að var
afleiðing af bráða-hvítblæði, sem er afar skæður og oft
banvænn sjúkdómur.

Hann fór strax í lyjameðferð en það var því miður um seinan. Andy Hug dó
24 ágúst 2000. Hann var einungis 35 ára gamall.

Peter Aerts, K-1 fighter og góðvinur Hug var einnig á
sjúkrahúsinu þegar Andy dó, í skoðun vegna bakmeiðsla og
fékk svo mikið áfall að hann var óviðræðuhæfur af sorg í tvo
tíma. Í sjónvarpsviðtali seinna um kvöldið strengdi hann
þess heit að hann myndi vinna Grand Prix keppnina til
heiðurs Andy Hug.

Fleiri keppendur fylgdu í kjölfarið og að lokum var ákveðið að
keppnin í heild sinni myndi verða tileinkuð Andy Hug. Hluti
gróðans af henni fór til Ilyonu, fyrrverandi konu hans og Seya
Hug sonar hans sem var einungis fimm ára þegar faðir hans
lést.

Kista hans var borin af mönnunum sem hann hafði mætt í K-1
hringnum, mönnum á borð við Francisco Filho, Nicolas
Pettas, Nobukai Kakuda, Sasaki og fleirum

12.500 manns fylgdu Andy Hug til grafar.

Listi yfir titla og afrek:

UKF World Superheavyweight Champion
WMTC World Super Heavyweight Champion
WKA World og European Muay Thai Super og Heavyweight
Champion
Kyokushin Super Cup Champion
K-1 Grand Prix Champion 1996
K-1 Finalist 1997 og 1998
Seidokan Karate World Open Champion
2x Kyokushin European Cup Champion
4th World Open Kyokushin Tournament Finalist

Alexander Karelin: Síberíska Tröllið





1.175 mílum austur af Moskvu, mitt í óbyggðum Síberíu stendur iðnaðarborgin Novosibrisk (Íbúafjöldi:1.75 millj.)umkringd gríðarstórum furuskógum. Á veturna fer hitinn stundum niður í -50 gráður á Celsius. Það er þar sem að maður að nafni Alexander Karelin fæddist og býr enn þann dag í dag. Þó svo að fæstir á vesturlöndum kannist við nafnið hans þá var hann nýlega valinn einn af 25 bestu íþróttamönnum 20. aldar, ásamt fólki á borð við Pele, Michael Jordan, Muhammed Ali, Jesse Owens og fleiri. En hver er þessi Karelin?

Alexander Karelin fæddist árið 1968 og var öllum ljóst að hér væri ekkert venjulegt barn á ferð. Hann vó rúmlega 7 kíló (28 merkur!)við fæðingu, og þegar hann hóf skólagöngu gnæfði hann höfuð og herðar yfir jafnaldra sína. Átti honum til að vera strítt fyrir sitt grófa og tröllslega andlitsfall og langa klunnalega útlimi. Sasha, eins og hann hefur alla tíð verið kallaður, var afar þægt og hlædrægt barn, einrænn jafnvel, og sýndi góðan námsárangur, enda af miklu menntafólki kominn. Langafar hans og ömmur voru Rússneskt vísinda- og listafólk sem Lenín sendi í útlegð til Síberíu í kjölfar Byltingarinnar Miklu.
Eina íþróttin sem hann stundaði í barnaskóla var sund, og stóð hann sig með sóma. Einnig var hann mikill skíðagarpur, og hamingjusömustu æskuminningar hans eru frá löngum veiðiferðum á gönguskíðum um skógana kringum Novosibrisk í leit að refum og safölum.

Grísk-Rómversk glíma er ein af upprunalegu Ólympíu íþróttunum og á sér meira en 3.000 ára sögu. Allt frá því að Ólympíuleikarnir voru endurvaktir höfðu Sovétríkin átt afar sterka glímumenn og unnið til fjölmargra verðlauna. Glímuþjálfarar ferðuðust vítt og breitt um hin víðfeðmu héruð landsins í leit að efnilegum íþróttamönnum sem gætu orðið verðugir fulltrúar fósturjarðarinnar á alþjóðavettfangi.

Þegar Karelin var orðinn 13 ára var hann farinn að nálgast 1.90 á hæð og líkamsbygging hans vakti áhuga Victor Kusnetzov, sem þjálfaði glímumenn í Novosibrisk.

Karelin hafði glímt í skóla, en fannst ekki mikið varið í íþróttina og var um það bil að leita á önnur mið, en Kusnetov tók það ekki í mál. Sá hann strax að hér væri kominn drengur sem lofaði góðu sem yfir-þungaviktarmaður(super-heavyweight), og þó að Karelin væri tregur til í fyrstu ákvað hann að gefa Kusnetzov tækifæri. Hefur hann ekki skipt um þjálfara síðan.

Tók drengurinn stórstígum framförum næstu tvö árin, en þegar hann var 15 ára varð hann fyrir því áfalli að fótbrotna á glímumóti. Móðir hans tók meiðslum einkasonarins afar illa, brenndi glímubúninginn hans, hellti sér yfir Kusnetzov og húðskammaði hann fyrir að slasa barnið hennar. Tilkynnti svo Alexander að hann myndi ekki glíma meir á meðan hún fengi einhverju um það ráðið. En hið rúmlega 100 kílóa "barn" var ekki á þeim buxunum.
"Hvernig gat ég gengið á brott frá íþróttinni sem ég hafði gefið allt sem ég gat, þar á meðal fótlegginn?", sagði hann síðar meir.

Hann sat ekki heldur auðum höndum á meðan hann beið eftir að brotið gréri, heldur hélt sér í formi með því að róa á árabát fram og til baka á hinum gríðarstóru stöðuvötnum í nágrenni Novosibrisk, svo klukkutímum skipti þangað til að blæddi úr höndunum á honum. Þegar hann varð þreyttur lét hann sig fljóta og las. Það var á þessum tíma sem að Karelin fékk áhuga á rússneskri menningu og bókmenntum og las allt sem hann komst í. Turgenev, Streiser, Bulgakov, Esenin, Marx, skipti ekki máli, hann hakkaði þetta allt í sig og meira til. Þótt ótrúlegt megi virðast segir hann að lesturinn, og þá sérstaklega ljóð Sergei Esenin hafi veitt honum innblástur til að þróa glímutækni sína enn frekar. Einnig hóf hann að yrkja sín eigin ljóð.

"Glíman er eins og ljóð" sagði hann í viðtali við Sports Illustrated. "Allir nota sömu orðin, en það sem máli skiptir er hvernig þú setur þau saman, hvernig þú býrð til eitthvað nýtt og fallegt úr hversdagslegum orðum. Þannig lít ég á glímuna, hver glímumaður nálgast hana á mismunandi hátt og setur sitt persónulega mark á hana."

Ári seinna var hann aftur orðinn heill heilsu og sannfærði foreldra sína um að leyfa sér að byrja að glíma aftur. Hefur það vafalaust spilað inní að Sovétríkin voru á þessum tíma föst í blóðugum stríðsátökum í Afghanistan, og hinn 16 ára Karelin var óðfluga að nálgast herskyldualdur.
Ein af fáu leiðunum til að forðast herskyldu var einmitt að komast inn í íþróttaprógramm ríkisins.

Næstu tvö árin skaust Karelin upp á stjörnuhiminn rússneskra íþróttamanna, og árið 1986, þá 1.90 cm, tæplega 140 kg af vöðvum(7% líkamsfita) og með næstum því 1.90 metra faðm, tapaði hann einungis einni glímu. Ósigurinn kom á móti þáverandi heimsmeistara, Igor Rostorotsky, 1-0(Mjög lítill munur í Grísk-Rómverskri glímu, úrslit á borð við 10-8 eru ekki óalgeng).

1987 vann hann U-21 heimsmeistaratitilinn og var valinn í landsliðið. En Karelin hafði um annað að hugsa. Hann var staðráðinn í að sigra Rostorotsky og tryggja sér sess sem aðal yfirþungaviktarmaður Rússa fyrir Ólympíuleikana 1988 í Seoul. Það var þá sem að hann fékk hugmynd sem átti eftir að vekja gríðarlega athygli í glímuheiminum og verða hann aðalsmerki í framtíðinni. Hann varð staðráðinn í að nota öfuga skrokklyftu(reverse body-lift).

Öfug skrokklyfta er kast sem er mikið notað í léttari þyngdarflokkum í Grísk-Rómverskri glímu, og felur í sér að þegar fórnarlambið er á fjórum fótum krýpur glímumaðurinn við hlið hans og snýr í öfuga átt, tekur utan um mittið á andstæðingnum og spyrnir sér upp og afturábak. Hið óheppna fórnarlamb hefur þá um tvo kosti að velja og báða slæma. Annarsvegar að streitast á móti og lenda þá að öllum líkindum á andlitinu með augljósum afleiðingum, eða að velta sér með kastinu og enda á bakinu, sem að nokkurnveginn gulltryggir sigur þar sem að sá sem leyfir herðablöðunum að hvíla á gólfinu í meira en þrjár sekúndur er úr leik í Grísk-Rómverskri glímu. Öfug skrokklyfta tryggir þér í minnsta falli 5 stig, í besta falli sjálfkrafa sigur. En þó svo að hún væri mikið notuð af léttari, snarpari glímumönnum var hún afar sjaldséð hjá þeim þyngri, og engum hafði nokkurn tíman dottið í hug að reyna hana í yfirþungavikt. "Það var talin almenn staðreynd að það væri ómögulegt að kasta mönnum á stærð við okkur", sagði bandaríkjamaðurinn Jeff Blatnick, gullverðlaunahafi á ÓL ´84 og eitt af fyrstu fórnarlömbum "Karelin-lyftunnar" eins og hún hefur verið kölluð. Blatnick var 134 kg á þeim tíma. "Karelin kenndi okkur að fljúga".

Svo mánuðum skipti æfði Karelin eins og óður maður, fór í tveggja klukkutíma víðavangshlaup í hnédjúpum snjó, fleygði 30 kg sandpokum úr einum stafla yfir í annann eins hratt og hann gat og svo aftur til baka, kastaði trjábolum og eyddi heilu og hálfu dögunum með Kusnetzov að fínpússa skrokklyftuna sem átti eftir að sigra heiminn.

Á boðsmóti í Kanada varð glímuheimurinn óþyrmilega var við að reglurnar sem allir héldu að giltu um stóru strákana voru ekki lengur í gildi. Hvert tröllið á fætur öðru sveif á mót ósigurs og Karelin bókstaflega jarðaði mótið.

Þegar hann kom heim sigraði hann Rostorotsky oftar en einu sinni og tryggði sér sess í hópi Ólympíufara.

Í Seoul lenti Karelin einungis tvisvar í vandræðum. Í fyrra skiptið þegar hann komst að því að hann kunni ekki á hinar háþróuðu kóresku þvottavélar í Ólympíuþorpinu(sóvéska kvennalandsliðið í blaki reddaði því fyrir hann!) og svo í úrslitaglímunni í keppninni þegar hann var einu stigi undir gegn Gerovsky með einungis 30 sekúndur eftir. Þá náði hann að læsa klónum utan um mitti Gerovsky og þar með voru örlög hans innsigluð. Eins og allir aðrir flaug hann í gegnum loftið og fyrsta Ólympíugull Alexanders Karelin var orðið að staðreynd. Tvö í viðbót áttu eftir að fylgja í kjölfarið, ásamt ótal Heims-, Evrópu-, og Rússlandsmeistaratitlum.

Þessi árangur kappans komu af stað vangaveltum um að líkamsbygging hans væri langt frá því að geta talist náttúruleg, og hlyti að vera afleiðing af steranotkun eða annarri lyfjaneyslu sem á þessum tíma var algeng meðal austur-evrópskra íþróttamanna. En Karelin hefur alla tíð hlegið að því og jafnvel þegar hann var ekki kallaður í hin handahófskenndu lyjapróf bauð hann sig fram sjálfur, því honum hefur alltaf verið það kappsmál að sýna að hann hafi ekkert að fela.

"Glímumenn vita yfirleitt hverjir eru á lyfjum og hverjir ekki löngu áður en þeir falla á prófi" sagði Greg Strobel, framkvæmdarstjóri USA Wrestling. "Það er nokkurnskonar opinbert leyndarmál. Nafn Karelins hefur aldrei komið upp í "búningsherbergjaspjallinu"".

Næstu 12 árin tapaði Karelin ekki einni einustu glímu, hvorki heimafyrir né á alþjóðamótum, og var í svo miklum sérflokki að öll viðmið yfirþungaviktarmanna breyttust.

"Menn litu á það sem sigur", segir Blatnick,"ef að hann kastaði manni ekki. Skítt með hvort maður tapaði, það var skrokklyftan sem við vorum hræddir við. Það er ekkert meira niðurlægjandi fyrir þungaviktarmenn heldur en að vera kastað". Og enginn gat kastað mönnum eins auðveldlega eða á eins niðurlægjandi hátt og Karelin.
Og það var niðurlægingin sem menn gerðu allt til að forðast. Þessi ótti gekk svo langt að menn brutu höfuðreglu Grísk-Rómverskrar glímu: þeir veltu sér á bakið og gáfu Karelin tækifæri til þess að pinna axlirnar í gólfið. Það var eina leiðin til að sleppa við lyftuna.

"Ég trúði ekki mínum eigin augum", sagði Mike Houck, bandaríski landsliðsþjálfarinn. "Heimsklassa glímumenn voru að brjóta einu regluna sem að hefur verið hömruð inn í hausinn á þeim allan þeirra feril, að aldrei, aldrei, aldrei gefa færi á bakinu sér, og þeir voru að gera það af því að þeir voru hræddir. Karelin vann þá löngu áður en glíman byrjaði:hann bókstaflega braut þá niður andlega".

Brátt varð "Sasha" Karelin þekktur um öll Sovétríkin sem eitt af fáum átrúnaðargoðum á erfiðum tímum. Gamla kerfið var að hrynja og óvissan um framtíðina gerði öllum erfitt fyrir. Karelin notaði peningana og virðinguna sem íþróttaferillinn færði honum til að tryggja sér frekari menntun(hann hafði þá þegar útskrifast sem vélvirki áður en hann fór til Seoul)og náði sér í kennararéttindi. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur 1990 bjuggust margir við því að Karelin myndi flytjast úr landi, jafnvel til Bandaríkjanna, eins og svo margir aðrir íþróttamenn gerðu þegar ferðafrelsi komst á. Karelin fékk atvinnutilboð frá mörgum virtum háskólum í bandaríkjunum að koma og þjálfa, einnig frá NFL liðum, WWF Pro-wrestling deildinni og jafnvel Hollywood um að gerast leikari. En hann hafnaði þeim öllum. Fósturjörðin var honum svo kær að hann gat ekki hugsað sér að yfirgefa hana.

Eitt það fyrsta sem var skorið niður þegar kommúnistastjórnin féll var hið viðamikla ríkisrekna íþróttaprógramm. Karelin sá að glímuhefð Rússa væri í mikilli hættu þannig að hann stofnaði Karelin-sjóðinn, góðgerðarsamtök sem studdu við bakið á glímuhreyfingunni í Síberíu og tóku við fjárframlögum frá stofnunum og fyrirtækjum svo að ungmenni gætu lagt stund á þessa fornu íþrótt. Einnig eyddi hann löngum stundum við Spartak-íþróttaskólann við Svartahaf, þar sem að hann kenndi glímu og æfði sjálfur. Einnig nældi hann sér í svartabelti í Judo og hinni rússnesku fangbragðalist Sambo, þó að frami á þeim vettfangi hafi aldrei verið takmarkið. Grísk-Rómverska glíman hefur alltaf verið hans stærsta ást.
Allt annað var bara dægrastytting, eða í mesta lagi auka-þjálfun fyrir glímuna.

"Ég vil líta á mig sem klassískann mann", sagði Karelin í Sports-Illustrated viðtali. "Eg les klassískar bókmenntir, hlusta á klassíska tónlist og ég elska Grísk-Rómverska glímu af því að hún á sér svo langa og ríka sögu, allt aftur til gullaldar visku og þekkingar Grikkja. Að fá að vera hluti af svo merkri hefð eru forréttindi sem að ég er ekki tilbúinn að vanrækja fyrir frama í öðrum íþróttagreinum".

Karelin tók gullið auðveldlega á ÓL "92 í Barcelona og enn og aftur var hann aðalmaður Rússa í Atlanta "96. Þar mætti hann bandaríkjamanninum Matt Ghaffari í úrslitunum, Ghaffari hafði einsett sér það að sigra Karelin, enda á heimavelli og Karelin veikar fyrir en áður, hafði nýlega verið skorinn upp vegna meiðsla í öxl. Ghaffari var svo heltekinn löngun að sigri manninn sem hafði sigrað hann í tuttugu viðureignum í röð á ýmsum alþjóðlegum mótum að hann hengdi upp risastóra andlitsmynd af Karelin í svefnherberginu sínu, þannig að um leið og hann vaknaði á morgnana væri hann minntur á hvert takmark dagsins væri: æfa,æfa og æfa meira þannig að draumurinn gæti ræst.

Lengi vel voru þessir tveir risar læstir í þrátefli, hvorugur náði að skora eitt einasta stig. Karelin hafði ekki mætt þvílíkri mótspyrnu í áraraðir. Glíman fór í framlengingu. En þegar tvær mínútur voru liðnar af henni skoraði Karelin eitt stig, og það var nóg. Enginn gat skorað gegn honum, og tíminn rann út. Þriðja ÓL gull Karelin var í höfn, og Ghaffari grét á verðlaunapallinum þegar hann tók við silfrinu.

Á árunum eftir fall kommúnistastjórnarinnar rauk spilling og skipulögð glæpastarfsemi upp úr öllu valdi í Rússlandi, og Síbería bar ekki varhluta af því. Karelin hóf þá störf hjá Fjármálaeftirliti Ríkisskattstofunnar, sem að í Rússlandi er stofnun ansi ólík hliðstæðum stofnunum á vesturlöndum. Þar þjálfaði hann vopnaðar víkingasveitir Fjármálalögreglunnar, sem eru nokkurnskonar "Untouchables" sveitir sem eru skipaðar mönnum sem á að vera ómögulegt að múta eða hafa áhrif á. Hafa þeir víðtækar heimildir til að gera rassíur hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum sem talin eru vera tengd skipulagðri glæpastarfsemi. Karelin var gerður af ofursta í fjármálalögreglunni, og var ábyrgur fyrir því að kenna víkingasveitunum návígis-bardagatækni, en einnig var hann andlit Fjármálalögreglunnar útávið, kom fram í auglýsingum og á blaðamannafundum og hvatti almenning til að standa saman og láta ekki mafíuna kúga sig, heldur tilkynna misferli og glæpi hvar sem þeir kynnu að vera. Gat hann sér gott orð, og það er á hreinu að sú virðing sem rússneskur almenningur ber fyrir honum hefur haft sitt að segja um að þónokkur árangur hefur náðst í baráttunni við það samfélagsmein sem glæpir og spilling er.

1998 bauð Karelin sig fram til setu í Dúmunni, neðri deild Rússneska þingsins, og hlaut með eindæmum góða kosningu í Novosibrisk. Sagði hann starfi sínu hjá Fjármálaeftirlitinu lausu og settist á þing. Þar hefur hann átt farsælan feril og unnið ötullega að því að Síbería gleymist ekki í hinu nýja Rússlandi. Hefur hann átt sérlega góð samskipti við Vladimir Putin Rússlandsforseta(til gamans má geta að Putin er einnig svartbeltingur í Judo)og stutt hann dyggilega. Karelin var samt ekki búinn að yfirgefa glímuna, og stefndi á að styrkja arfleið sína enn frekar með því að vinna gull á fjórðu Ólympíuleikunum í röð, árangur sem er hreint sögulegur.

Á síðustu Ólympíuleikum virtist allt ætla að fara á sama veg og áður, Karelin var óstöðvandi - þangað til að hann mætti ungum mormóna strák frá Utah, Rulon Garner í úrslitunum. Í þetta skiptið var úrslitunum frá 1996 snúið við, Garner náði að skora eitt stig gegn Karelin, sem var fyrsta stigið sem Karelin fékk á sig í tíu ár. Garner varðist vel það sem eftir lifði glímunnar og sama hvað Karelin reyndi gat hann ekki skorað gegn Garner. 1-0 fyrir Garner og Karelin varð að sætta sig við silfur. En það skiptir svo sem ekki máli, Karelin er fyrir löngu búinn að tryggja sinn sess í sögu Ólympíuleikanna, og ekki síður í sögu Rússland sem einn af fyrirmyndarborgurum landsins. Hlaut hann nýlega gullstjörnuna og titilinn "Hetja Föðurlandsins", æðsta heiðursmerki sem að óbreyttur borgari getur fengið.

Karelin er enn í dag þingmaður og allsherjar mannvinur í Rússlandi og er einn af þekktustu mönnum landsins.


Heimildir: Sports Illustrated, http://www.karelin.ru.

Monday, November 21, 2005

Handhafi Hnúavaldsins - karlmenn og ofbeldi.


Heilög reiðin

Stundum finnst manni að það sé afar stutt í hellisbúann í manni. Þegar maður klemmir sig er fyrsta viðbragðið að krossbölva, stappa fótum og berja í borð. Þegar erfiðleikar steðja að á vinnustað eða heima fyrir virðist það einhvernveginn vera nauðsynlegt að kreppa hnefa og gnísta tönnum, þrátt fyrir að slíkir tilburðir geri nákvæmlega ekki neitt til þess að leysa vandamálið. Berja. Bíta. Skemma. Eyðileggja. Þetta eru allt tilfinningar sem að blunda í nútíma karlmanninum undir rakspíra-spreyjuðu hvítflibba yfirborðinu. Þegar á reynir viljum við ekki snúa lyklinum í hurðinni því að það er svo miklu auðveldara og svalandi að einfaldlega brjóta hana niður.


Fréttamiðlarnir, og nánasta umhverfi okkar virðast full af frásögnum af slagsmálum, líkamsárásum og heimilis ofbeldi. Sem karlmaður skammast ég mín sáran fyrir kynbræður mína og hegðun þeirra. Siðmenning getur ekki þrifist þar sem að friðsamt fólk er ofurselt handhöfum hnúavaldsins. Þeim ber að refsa og senda skýr skilaboð að ofbeldi verði ekki liðið. En erfitt er að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið í hann, og ávallt munu spretta fram nýir menn sem níðast á sakleysingjum.

Kúgunartæki andlegra heftra karlmanna

Sem iðkandi bardagalista til nokkurra ára er undirritaður oft sakaður um að vera slagsmálahundur og hafa gaman af ofbeldi. Þessi afstaða finnst mér vera röng þar sem að flest fólk notast við skilgreiningu á ofbeldi sem að stenst ekki við nánari athugun. Ofbeldi er verk- naður sem að þolandinn vill ekki, og er framinn af einni manneskju við aðra, yfirleitt mun veikbyggðari mann eskju. Ofbeldi er afleiðing skorts á eðlilegri tjáningu mannlegrar árásargirndar.

Í hinni miklu kvenfrelsis bylgju síðustu aldar og styrktrar sjálfsímyndar kvenna hafa karlmenn að vissu leyti orðið útundan og utanveltu í siðmenningunni. Við erum neyddir til að falla að formi sem að að neitar okkur um eðlilega tjáningu á einni af grundvallar tilfinningum (karl)manns skepn- unnar

Að afneita þessum grunn eiginleika býður upp á ýmis vandamál, t.d ofbeldi gegn konum og öðrum minnimáttar, óhóflega sækni í félagsleg eða fjárhagsleg völd yfir öðrum eða sjúklegan ótta við að verða sjálfur fórnarlamb. Innan ramma sanngjarnar keppni getur ekkert ofbeldi átt sér stað því að báðir aðilar eru þar af fúsum og frjálsum vilja. Í gegnum ritúal hólmgöngunar er hinn innri villimaður dreginn út, fær að spóka sig í öruggu umhverfi og hverfur svo aftur inn í hugarfylgsni sitt án þess að saklausir verði fyrir barðinu á honum.

Ofbeldi ?

Í kvikmynd David Fincher Fight Club býr hinn ónefndi sögumaður til aukasjálfið Tyler Durden, frjálsan og óháðan hellisbúa sem að setur sínar eigin reglur. “Saman” stofna þeir bardagaklúbbinn, þar sem ósköp venjulegir menn kynnast sínum sönnu innri mönnum í gegnum blóðug slagsmál sín á milli í skítugri kjallaraholu. Þessi klúbbur starfar þó eftir sínum eigin innri lögmálum, þar sem að allir þáttakendur eru jafn réttháir og öðlast innri frið í gegnum tap og sigra, bræðra- lag og baráttu.

Þó svo að Fight Club sé einungis kvikmynd þá slær hún á ýmsa strengi innra með undirrituðum. Getur verið að hægt sé að byggja upp heilbrigðara samfélag með því að kenna sonum okkar og bræðrum að tjá árásargirni sína á öruggan hátt?

Fyrir nokkrum árum sá ég afar áhugaverðan þátt af hinum vinsæla fréttaskýringaþætti 60 Minutes. Þar var fjallað um vandamál ungra fílstarfa í þjóðgarði í S-Afríku. Þeir voru fluttir ungir á verndað svæði til að forða þeim frá veiðiþjófum. Þar sem erfitt reyndist að fanga fullorðnu tarfana voru þeir skildir eftir og ólust ung tarfarnir upp hjá mæðrum sínum eingöngu. Þegar þeir uxu úr grasi urðu þeir jafnt mönnum sem dýrum stórhættulegir vegna árásargirni. Það aðhald sem að stærri tarfarnir hefði veitt þeim var ekki til staðar. Í stað þess að kljást við sér eldri og reyndari tarfa um virðingu og mökunarrétt níddust þeir á blásaklausum nashyrningum á svæðinu. Getur verið að karlkyns Homo Sapiens eigi við sama vandamál að stríða?